35 milljónir til uppbyggingu á ferðamannastöðum á Norðurlandi vestra.
Lilja Dögg Alfreðsdóttir menningar- og viðskiptaráðherra tilkynnti um úthlutun úr Framkvæmdarsjóði ferðamannastaða á dögunum og er gaman að segja frá því að fjögur verkefni af Norðurlandi vestra hlutu styrk. Alls bárust 101 umsókn í sjóðinn og hlutu 28 verkefni styrk upp á samtals 550 milljónir.
Af þeim verkefnum sem hlutu styrk af svæðinu voru þrjú í Skagafirði og eitt á Skagastönd. Verkefnin eru talin upp hér:
13 m. kr. Staðarbjargavík - Hönnun útsýnispalla og stiga
11,4 m. kr. Spákonufellshöfði - Fasi 2
8,3 m. kr. Uppbygging Hóla í Hjaltadal sem áfangastaðar fyrir ferðamenn
2,5 m. kr. Bætt aðgengi að Sviðsetningu Haugsnesbardaga
Verkefnið fyrir Staðarbjargarvík gengur út á að hanna útsýnispall og stiga við víkina sem sundlaugin á Hofsósi stendur við. Mikill fjöldi ferðamanna gengur fram á víkina og eru stígar farnir að láta á sjá og er mikil þörf á endurbótum til að tryggja gott aðgengi ferðamanna að þessum einstaka stað.
Uppbygging við Spákonufellshöfða er verkefni sem Sveitarfélagið Skagaströnd hefur verið að vinna að og gengur m.a. út á að hanna fuglaskoðunarhús úr íslensku hráefni og verður ráðist í framkvæmdir í sumar á þeirri uppbyggingu. Styrkurinn sem nú fékkst er vegna áframhaldandi aðgerða á Spákonufellshöfða. Aðgerðirnar fela í sér uppfærslu á fræðsluskiltum á höfðanum sem komin eru til ára sinna, að gera hjólastólafæran göngustíg frá bílastæði inn á höfðann og lítinn útsýnispall við enda þessa aðgengilega stíg.
Þriðja verkefnið er uppbygging á Hólum í Hjaltadal en góð samstaða er meðal hagaðila á svæðinu að byggja staðinn upp sem sterkan segul fyrir ferðamenn fyrir svæðið í heild. Hólar er merkur sögustaður sem mikill fjöldi heimsækir á ári hverju. Svo unnt sé að tryggja öryggi ferðamanna og koma sögunni sem best til skila þarf að hanna svæðið heildstætt með merkingum, bílastæðum og salernum fyrir ferðamenn.
Að lokum hlaut Sigurður Hansen styrk til að bætts aðgengi að sviðsetningu Haugsnesbardaga sem er einstakt verkefni sem hlotið hefur verðskuldaða athygli ferðamanna.
Óskum við styrkþegum innilega til hamingju.
Höfðabraut 6, 530 Hvammstanga
Kt. 541292-2419
S. 419 4550