Á uppskeruhátíð ferðaþjónustunnar á Norðurlandi, sem haldin var á dögunum, var sýningin 1238: Battle of Iceland valin Sproti ársins. Þessi viðurkenning er veitt ungu fyrirtæki sem hefur skapað eftirtektarverða nýjung í ferðaþjónustu á Norðurlandi. 1238: Battle of Iceland var stofnað árið 2019 og býður uppá frábæra aðstöðu fyrir bæði minni og stærri hópa. Sögusetrið 1238 er gagnvirk sýning sem færir viðskiptavini nær sögulegum stóratburðum en hefðbundnar fræðslusýningar. Með hjálp nýjustu tækni í miðlun og sýndarveruleika er þeim boðið að taka þátt í átakamestu atburðum Íslandssögunnar og beinlínis stíga inn í sögu Sturlungaaldar. Fyrirtækið hefur sýnt mikinn metnað í stafrænni markaðssetningu og verið mjög sýnilegt á öllum helstu boðleiðum. Í fyrra þurfti fyrirtækið að aðlaga þá markaðssetningu í meiri mæli að Íslendingum og tókst það vel. Sýningin hefur fyrir vikið vakið mikla athygli innanlands en einnig á erlendum mörkuðum. Þetta starf ýtir undir uppbyggingu á öflugri ferðaþjónustu í Skagafirði allt árið og vekur athygli bæði á nærsvæði fyrirtækisins en einnig Norðurlandi öllu. Freyja Rut Emilsdóttir tók við viðurkenningunni fyrir hönd 1238: Battle of Iceland.
1238: Battle of Iceland hlaut einnig viðurkenningu sem framúrskarandi verkefni á sviði atvinnuþróunar og nýsköpunar fyrir árið 2019. Í umsögn stjórnar sagði að verkefnið sé „einstaklega metnaðarfullt og til þess fallið að vekja mikla athygli á landsvísu. Um er að ræða fjárfestingu af stærðargráðu sem sjaldan sést í landshlutanum þar sem nýjasta tækni er nýtt til að miðla okkar sterka sagnarfi. Með verkefninu hefur skapast fjöldi starfa auk þess sem til verður mikilvæg afþreying í ferðaþjónustu sem svo mjög hefur skort á.“
Sýndarveruleiki ehf. sem rekur sýninguna 1238: Battle of Iceland hefur einnig hlotið styrki í ýmis verkefni úr Uppbyggingarsjóði Norðurlands vestra í gegnum Sóknaráætlun Norðurlands vestra árin 2019-2021.
Höfðabraut 6, 530 Hvammstanga
Kt. 541292-2419
S. 419 4550