Ungmennaþing SSNV fór fram í gær og heppnaðist það vel. Markmið dagsins var að gefa ungu fólki á Norðurlandi vestra tækifæri til þess að hafa áhrif á stefnumál landshlutans og koma sínum hugmyndum á framfæri. Yfirskrift þingsins í ár var „Okkar framtíð á Norðurlandi vestra“. Afurð vinnustofunnar verður síðan notuð við gerð nýrrar sóknaráætlunar. Ungmennin voru vinnu- og áhugasöm og erum við mjög stolt af þessum flottu fulltrúum. Það sem við viljum einnig taka út úr þessum degi er tengslamyndun á milli unga fólksins í landshlutanum og SSNV, og teljum við það hafa heppnast vel.
Á þingið mættu 43 ungmenni á aldrinum 13-18 ára frá öllum sveitarfélögum landshlutans. Lára Kristín Skúladóttir og Erlingur Fannar Jónsson héldu utan um vinnustofuna og þökkum við þeim kærlega fyrir vel unnin störf, núna tekur við samantekt hjá starfshópi ungmennaþingsins og verða niðurstöður kynntar á haustþingi SSNV 15. október nk. Ragnheiður Aradóttir og Þorsteinn Bachmann sáu um fyrirlestra dagsins og vöktu þau mikla gleði.
SSNV vill þakka öllum þeim sem tóku þátt í deginum með okkur og þá sérstaklega frábæra unga fólkinu okkar sem stóðu sig mjög vel. Framtíðin er svo sannarlega björt á Norðurlandi vestra og hlökkum við til að efla áframhaldandi samstarf.
________________________________________
Ungmennaþingið er hluti af áhersluverkefni SSNV Ungt fólk á Norðurlandi vestra. Markmið þess er að skapa vettvang fyrir ungt fólk til að tjá skoðanir sínar og ræða málefni sem brennur á því, valdefla og efla tengslanet þessa hóps. Jafnframt að kynna menningu landshlutans fyrir ungu fólki og fá þeirra sýn inn í samráðsvettvang sóknaráætlunar.
Höfðabraut 6, 530 Hvammstanga
Kt. 541292-2419
S. 419 4550