Kerti! - fróðleiksmoli um umhverfismál

Veturinn er á leiðinni með kólnandi veðri, löngum skuggum og kertaljósum. En kerti eru ekki bara kerti og fyrir okkur sem finnst notalegt að kveikja á kertum er vert að hafa nokkur atriði í huga.  

Á vefsíðunni Í boði náttúrunnar eru lesendur spurðir hvort þeir viti hvað veldur því að sum kerti eru umhverfisvæn og hrein? Gera má ráð fyrir að ekki séu allir með þau atriði á hreinu og því deilum við með ykkur þeim fróðleik:  

Eins og kerti eru frábær fyrirbæri þá hafa þau einnig sínar dökku hliðar. Mengun, sót og ofnæmisvaldandi efni er því miður fylgifiskur margra kerta á markaðinum. Það er því mikilvægt að vita hvernig við getum valið kerti sem hafa sem minnst skaðleg áhrif á umhverfi okkar og heilsu. Gott er að hafa í huga að kaupa kerti úr náttúrulegu vaxi eins og soja, býflugna- eða repjuolíuvaxi.  

Á vefsíðunni Spunalín fundum við eftirfarandi fróðleik um bývax 

 

Af hverju bývax? 

Bývax er elsta þekkta efnið í kertagerð og kerti úr bývaxi hafa fundist inni í fornum pýramídum í Egyptalandi. Bývax er búið til af býflugum sem safna vaxinu án þess að verða fyrir skaða. Bývax er náttúrulegt og endurnýjanlegt efni sem eitrar ekki andrúmsloftið. Bývax er því afar gott fyrir fólk sem er viðkvæmt fyrir eða með ofnæmi. Ekki síður alla þá sem vilja heilnæmara loft með því að brenna hreinum kertum á heimilum sínum.  

Í flestum venjulegum kertum er að finna parafínvax. Parafín er loka hjá-afurð sem verður til við bensínframleiðslu og er því óendurnýtanlegt efni sem veldur töluverðri mengun á andrúmsloftinu. Parafín kerti innihalda flest allt að sjö þekkt eiturefni. Þá eru mörg kerti í dag einnig unnin úr pálmaolíu sem unnin er á kostnað verndunar regnskóga. 

Bývax er: 

  • Laust við eiturefni. Bývax kerti innihalda engin af þeim eiturefnum sem finna má í venjulegum parafín vaxkertum. 

  • Mögulegt að brenna í kringum fólk sem er með astma, ofnæmi eða er viðkvæmt fyrir öðrum efnum. 

  • Endurnýtanleg auðlind sem mannfólk hefur notað í yfir þúsundir ára. 

  • Sojavax 

Við svolítið grúsk á veraldarvefnum fundum við á bresku síðunni LiveMoor líka svolitlar upplýsingar um sojavax, en það er grænmetisvax sem notað er til kertagerðar. Sojavax er unnið úr sojabauninni og er því 100% náttúrulegt. Það er endurnýjanlegur, náttúrulegur valkostur sem hefur lágmarksáhrif á umhverfið.  

 

Ef ilmkerti eru valin er mikilvægt að kaupa kerti með gæða ilmolíum í stað tilbúinna ilmefna. Á vef Umhverfisstofnunar kemur samt fram að bæði manngerð og náttúrleg ilmefni geti haft óæskileg áhrif á okkur og samkvæmt textanum þar er fólki ráðlagt að minnka notkun ilmefna á heimilinu og að forðast vörur með ilmefnum fyrir börn, einkum ungbörn.  

Þegar kemur að því að velja kerti er því mikilvægt að huga ekki aðeins að útliti og/eða lykt heldur einnig mögulegra áhrifa á heilsuna og umhverfið. 

 

SSNV styður sveitarfélögin á svæðinu til að mæta kröfum sem á þau eru gerð m.t.t. loftslagsmála og innleiðingar heimsmarkmiða. Einnig viljum við efla umhverfisvitund íbúa í landshlutanum til að auka árangur í málaflokknum í takt við markmið bæði núgildandi og nýrrar sóknaráætlunar landshlutans.