Ásmundur Einar mennta- og barnamálaráðherra kynnti nýtt mælaborð farsældar barna í morgun

Mennta- og barnamálaráðuneytið kynnti nú í morgun nýtt Mælaborð farsældar barna. Mælaborðið er nýtt verkfæri sem er gert til að styðja við innleiðingu farsældarlaganna og innleiða gagnadrifna stefnumótun hvað hag barna varðar. Í mælaborðinu eru fimm grunnstoðir farsældar skilgreindar: Menntun, heilsa og vellíðan, öryggi og vernd, lífsgæði og félagsleg staða, þátttaka og félagsleg tengsl. Hlutverk mælaborðsins er að veita yfirsýn yfir stöðu farsældar barna á Íslandi á hverjum og einum tíma, með áherslu á viðkvæma hópa og samfélagslegar áskoranir. Mælaborðið er hugsað sem verkfæri til að leggja mat á árangur farsældarlaga og eru gögnin birt út frá fjölda bakgrunnsbreyta sem hægt er að skoða með tilliti til m.a. landshluta.  

Fram kemur á vef stjórnarráðsins að mælaborðið hafi verið í þróun frá því ritun farsældarlaganna hófst og farið fram í umfangsmiklu samráði við önnur ráðuneyti, fræðasamfélagið, hagaðila, sveitarfélög og ekki síst börn. 

Hér má sjá kynninguna og fundinn í heild sinni (hefst á 11:58): https://vimeo.com/event/4246338/embed/0aa79d2a0c/interaction