Þann 28. maí stóðu Samtök sveitarfélaga á Norðurlandi vestra (SSNV) fyrir ráðstefnu um umhverfismál sem bar yfirskriftina Hvað eigum við að gera?
Kveikjan að ráðstefnunni var vinna samtakanna við greiningu kolefnisspors Norðurlands vestra sem nú stendur yfir í samvinnu við Stefán Gíslason umhverfisstjórnunarfræðings hjá Environice í Borgarnesi. Verkefnið er áhersluverkefni Sóknaráætlunar fyrir árin 2018 og 2019.
Stefán greindi frá bráðabirgðaniðurstöðum á greiningu sinni á kolefnisspori landshlutans í erindi á ráðstefnunni og er óhætt að segja að fyrstu niðurstöður séu sláandi. Skv. þessum fyrstu útreikningum Environice er heildar kolefnislosun landshlutans 1.774.378 tonn. Skipting losunarinnar er eftirfarandi:
Staðbundin orkunotkun |
14.757 |
0,83% |
Orkunotkun í flutningum |
56.120 |
3,16% |
Meðhöndlun úrgangs |
7.225 |
0,41% |
Iðnaðarferlar |
478 |
0,03% |
Búfé |
118.813 |
6,70% |
Landnotkun |
1.576.378 |
88,88% |
Samtals |
1.774.378 |
100% |
Vert er að taka fram að um fyrstu niðurstöður útreikninga er að ræða en vinnan við greininguna stendur yfir og má reikna með að skýrsla með heildarniðurstöðum komi út með haustinu. Sérstaka athygli vekur hversu hátt hlutfall losunar er rakin til landnotkunar og má segja að sú niðurstaða hafi komið nokkuð á óvart. Eins og Stefán sagði í erindi sínu er því ljóst hvar tækifærin liggja en það var einmitt eitt af markmiðum verkefnisins að koma auga á hvar mestu tækifærin til að minnka kolefnisspor landshlutans liggja.
Nánari upplýsingar um útreikingana og ítarlegri sundurliðun má finna í erindi Stefáns frá því á ráðstefnunni sem birt er í heild sinni á facebook síðu SSNV (Sjá hér: https://www.facebook.com/ssnordurlandvestra/videos/302348763976364/ erindi Stefáns hefst á 10. mínútu upptökunnar).
Á ráðstefnunni voru flutt fjölmörg áhugaverð erindi önnur um hinar ýmsu hliðar umhverfismála. Áslaug Karen Jóhannsdóttir sérfræðingur hjá utanríkisráðuneytinu fjallaði um heimsmarkmiðin og aðgerðir stjórnvalda. Ásdís Hlökk Thedórsdóttir flutti erindi um virkjun heimsmarkmiða í skipulagsmálum en við vinnu við endurskoðun landsskipulagsstefnu eru heimsmarkmiðin virkjuð með áhugaverðum hætti. Eva Björk Harðardóttir oddviti Skaftárhrepps fjallaði um stefnumótun sveitarfélagsins sem hófst nýverið og tekur mið af heimsmarkmiðunum. Unnsteinn Snorri Snorrason framkvæmdastjóri Landssamtaka sauðfjárbænda fjallaði um sauðfjárbændur og loftslagsmál. Hann benti réttilega á að verkefnið að draga úr losun í landbúnaði snýst um það að bæta búrekstur. Rakel Garðarsdóttir stofnandi Vakandi og Verandi fjallaði um umhverfismálin út frá sjónarhorni sóunar og neysluhegðunar okkar mannana. Þóra Margrét Þorgerisdóttir sorp-bloggari fjallaði um leið hennar fjölskyldu að minna sorpi og þeim ótrúlega árangri sem þau hafa náð í þeim efnum.
Á ráðstefnunni voru ferðir starfsmanna, nefnda og ráða á vegum SSNV kolefnisjafnaðar með því að afhenda fulltrúum skógræktarfélaganna á starfssvæði samtakanna gjafabréf fyrir trjáplöntun sem þau munu taka að sér að gróðursetja fyrir hönd samtakanna. Áætluð kolefnislosun samtakanna vegna ferða er 22,4 tonn. Á komandi misserum verður leitað leiða til að draga úr þeirri losun.
Stefán Gíslason og aðrir starfsmenn Environice halda nú áfram með vinnu við útreikningana og eins og kom fram er stefnt að útgáfu skýrslu með haustinu með lokaniðurstöðum þar sem gerðar verða tillögur að mögulegum aðgerðum til að bæði minnka losun sem og mótvægisaðgerðum þeirrar losunar sem erfitt er að komast hjá.
Öll erindi ráðstefnunnar eru aðgengileg á facebooksíðu samtakanna.
Fyrri hluti ráðstefnunnar: https://www.facebook.com/ssnordurlandvestra/videos/302348763976364/?epa=SEARCH_BOX
Seinni hluti ráðstefnunnar: https://www.facebook.com/ssnordurlandvestra/videos/1706481682992583/?epa=SEARCH_BOX
Erindi Þóru Margrétar Þorgeirsdóttur (var leikið af upptöku á ráðstefnunni): https://www.youtube.com/watch?v=YVippxHtrpE&feature=share
Höfðabraut 6, 530 Hvammstanga
Kt. 541292-2419
S. 419 4550