Áskorun stjórnar SSNV til stjórnar RARIK vegna starfsauglýsingar

Nýverið auglýsti RARIK eftir verkefnisstjóra stærri framkvæmda. Auglýsingin vakti nokkra athygli og umræðu þar sem starfsstöð starfsmannsins var tiltekin í Reykjavík þegar öll starfsemi félagsins og þar með framkvæmdir á þess vegu fara fram á landsbyggðinni. Stjórn SSNV tók málið til umræðu á fundi sínum þann 6. apríl 2021 og bókaði eftirfarandi:

 

Nýverið auglýsti RARIK laust til umsóknar starf verkefnisstjóra stærri framkvæmda hjá félaginu. Í auglýsingunni er tiltekið að starfsstöð viðkomandi starfsmanns verði í Reykjavík. Vert er að vekja athygli á að starfsemi RARIK er öll á landsbyggðinni ef frá eru taldar höfuðstöðvar. Allar þær framkvæmdir sem nýr verkefnisstjóri mun hafa umsjón með verða því á landsbyggðinni. Þess vegna vekur það furðu stjórnar SSNV að föst starfsstöð í Reykjavík sé tiltekin í auglýsingunni en starfið ekki auglýst án staðsetningar. Þegar eru til staðar fjölmargar starfsstöðvar félagsins um land allt, m.a. á Blönduósi og Sauðárkróki auk ný aflagðrar starfsstöðvar á Hvammstanga.    

 

Stjórn SSNV skorar á stjórn RARIK að endurskoða fasta staðsetningu starfa í Reykjavík og auglýsa þess í stað störf án staðsetningar. Þannig stuðlar félagið að áframhaldandi uppbyggingu starfsstöðva sinna á landsbyggðinni, þar sem viðskiptavinir þess eru staðsettir.  

 

Stjórn SSNV veitti jafnframt nýverið umsögn um þingsályktunartillögu um flutning höfuðstöðva RARIK á landsbyggðina. Í umsögninni er tekið undir efni þingsályktunartillögunnar og minnt á að í skýrslu Norðvesturnefndarinnar frá árinu 2014 um eflingu byggðaþróunar, fjölgun atvinnutækifæra og auknar fjárfestingar á Norðurlandi vestra var ein tillagnanna flutningur höfuðstöðva RARIK á Sauðárkrók auk eflingar starfsstöðva á Blönduósi og Hvammstanga. Umræða um staðsetningu starfa hjá RARIK er því langt frá því að vera ný af nálinni.